top of page
FullColor_IconOnly_1280x1024_72dpi_edited.jpg

Vopnabúrið varð að veruleika

Í byrjun árs 2021 varð úrræðið Vopnabúrið sett á laggirnar af honum Birni Má, félagsráðgjafa, lögreglumanni og einkaþjálfara. Kveikjan að úrræðinu varð til vegna þess veruleika sem fjölskyldur, börn og ungmenni glíma við t.a.m. löngum biðtíma eftir úrræðum, vöntun á samþættri þjónustu, snemmtækri íhlutun og síðast en ekki síst vöntun á sérsniðnum úrræðum fyrir hvern og einn einstakling þar sem þeim er mætt þar sem þeir eru staddir hverju sinni.

Nafnið Vopnabúrið endurspeglar þær lausnir og verkfærakistu sem úrræðið hefur úr að bjóða til að ná fram því besta í fari einstaklinga. Þá ennfremur merkir það að nýta þá styrkleika til fulls sem einstaklingar búa yfir og gera þeim hátt undir höfði. Slagorð Vopnabúrsins er Nýr dagur - Ný tækifæri sem merkir að hver og einn einstaklingur fái ávallt nýjan dag og ný tækifæri til þess að gera betur.

Úrræðinu er ætlað að mæta einstaklingum, fjölskyldum, börnum og ungmennum sem glíma við fjölþættar áskoranir og þá sérstaklega þeim sem eru hvað mest jaðarsettir í samfélaginu. Þá er úrræðinu t.a.m. ætlað að mæta ungmennum sem glíma við fíkni- og hegðunarvanda, skólaforðun, áhættu- og ofbeldishegðun ásamt einstaklingum sem eiga við langvarandi stuðningsþarfir að etja. Í starfinu er skjólstæðingum ávallt mætt þar sem þeir eru staddir hverju sinni á jafningjagrundvelli þar sem áherslan er lögð á grunnþarfirnar svefn, næringu og hreyfingu. Hvort sem það er aðstoð með uppsetningu á hversdagsrútínu í leik og starfi er ávallt horft til þess að koma enn frekara jafnvægi á andlegt jafnt sem líkamlegt heilbrigði skjólstæðinga.

Í starfinu er lagt mikið upp úr því að útbúa einstaklingsáætlun sem snýst um það sem skiptir skjólstæðinginn mestu máli. Þá er leitast eftir því hvert skjólstæðingurinn stefnir og hvaða árangri hann vill ná á ákveðnum tímapunkti og í framtíðinni. Auk þess er hugað að jafnvægi á milli tveggja þátta og þá því sem er mikilvægt fyrir skjólstæðinginn og hvað skiptir hann máli. Þjónustan er aðlöguð honum og gerð með þarfir hans og langanir í huga í stað þess að hann sé settur í fyrirliggjandi þjónustu  sem hann þarf að aðlagast. Þá er ávallt verið að endurmeta hvað virki og hvað virki ekki í þjónustu við skjólstæðinginn og verið að skoða framfarir sem hafa orðið. Markmið slíkrar áætlunar er að skjólstæðingnum sé gefinn sá stuðningur sem hann þarf til að nálgast drauma sína og markmið með öryggi, heilbrigði og vellíðan hans að leiðarljósi.

 

Þjónustu Vopnabúrsins er skipt upp í 3 þjónustuþætti sem eru eftirfarandi:

 

  1. Ráðgjöf og stuðningsviðtöl auk meðferðarvinnu

  2. Einka- og fjarþjálfun þar sem grunnþörfunum svefn, næringu og hreyfingu er veitt sérstakri athygli

  3. Tómstundir og félagsleg virkni þar sem unnið er í flæði og allt í boði á sama tíma.

Í starfinu er unnið mikið í flæði þar sem horft er til þess að einstaklingar geti prófað fyrir sér hinar ýmsu tómstundir þar sem þeir finna sér eitthvað við hæfi sem verður svo rauði þráðurinn í starfinu. Þá geta þau ávallt breytt útaf og sem dæmi eina vikuna fá kennslu í að aka torfærutæki og hina vikuna að útfæra tónlist og taka upp. Þetta mun kalla á aukinn þroska, visku, sjálfstraust, sjálfsþekkingu og sterkari sjálfsmynd.

 

Starfið innan Vopnabúrsins er unnið fyrst og fremst á grunni félagsráðgjafar og atferlisfræða þar sem valdeflandi, lausnamiðuð- og tengslamyndandi nálganir eru í forgrunni þar sem hjálp til sjálfshjálpar er fremst í flokki. Samvinna við skjólstæðinga er lykillinn í starfinu og höfð í forgrunni þar sem skjólstæðingar upplifa sig sjálfa við stýrið þar sem þeir geta tekið sínar eigin ákvarðanir til að hafa áhrif á eigið líf. Þá er notast við umbunar- og hvatningakerfi í starfinu og fer það eftir hentugleika hverju sinni og hvort þörfin sé fyrir slíku kerfi. Umbunar- og hvatningakerfi sem notast er við eru athafnasamningar eða svokallaðir dagssamningar sem hafa fræðilegan grunn að sækja til atferlisfræða, þar sem unnið er með daglegar athafnir og hversdagsleika skjólstæðingsins. Það gerir þeim kleift að hljóta umbun fyrir vel unnin störf.

 

Heildarsýn er höfð að leiðarljósi í hverju máli fyrir sig þar sem öllum steinum er velt upp svo allir hlutaðeigandi aðilar rói á sömu mið. Rauði þráðurinn í starfinu eru styrkleikar skjólstæðingsins þar sem þeim er veitt enn frekari athygli og gert hátt undir höfði. Þar er leitast eftir því að skjólstæðingar nái meiri árangri í því sem þeir elska að gera. Þá er ávallt horft til þess að koma enn frekara jafnvægi á milli heimilis, skóla og tómstunda og eru þar grunnþarfir skjólstæðinga fremst í flokki svefn, næring, hreyfing og félagsleg virkni.

​Starfið gengur út frá því að foreldrar/forsjáraðilar, aðstandendur og/eða umönnunaraðilar fái veittan stuðning í formi ráðgjafar- og stuðningsviðtala á meðan unnið er með barnið/ungmennið og meðferðarvinnu eftir þörfum hverju sinni. Starfið byggist á þverfaglegri samvinnu og eru haldnir reglulegir samráðsfundir með lykilaðilum og þeim sem að málefnum skjólstæðingsins koma hverju sinni. Í Vopnabúrinu er horft til þess að einungis fagmenntaðir einstaklingar starfi með skjólstæðingum sem búa yfir fagþekkingu og reynslu þegar kemur að málefnum barnafjölskyldna.

 

Starfssemi Vopnabúrsins hefur hlotið öll tilskilin leyfi sem krafist er og uppfyllir allar þær faglegar lágmarkskröfur sem gerðar eru til slíkra úrræða og má þar nefna starfsleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu, rekstrarleyfi frá Embætti Landlæknis auk starfsréttinda.

Snemmtæk íhlutun í málefnum barna á grunnskólaaldri

Vopnabúrið sinnir snemmtækri íhlutun í málefnum barna á grunnskólaaldri sem glíma við fjölþættar áskoranir. Verkefnið er styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Starfið er unnið útfrá farsældarlögunum nr. 86/2021 í nánu samstarfi við sveitarfélög þar sem þverfagleg teymisvinna er í forgrunni og myndað stuðningsteymi í kringum barnið þar sem allir hlutaðeigandi aðilar vinna að sama markmiði með farsæld barna að leiðarljósi. Í starfinu er unnið með umhverfis- og samtalsmeðferð með sjálfsstyrkingu að leiðarljósi í gegnum tómstundir og áhugamál. Þá er horft til þess að aðstoða með uppstillingu hveradagsrútínu, horft til frekari virkni og leitast við að tengja barnið innan íþrótta og/eða æskulýðastarfs. Þá er ávallt ætlað að leita lausna og leiða fyrir barnafjölskyldur og skólastarfsfólk þegar vandi steðjar að.

20241123_163122.jpg

Forvarnar- og fræðsluerindið TÖFF/TOUGH

Vertu besta útgáfan af þér !!!

Forvarnar- og fræðsluerindinu er ætlað að ná til einstaklinga sem leita eftir því að verða betri útgáfa af sér og/eða eru á rangri braut í lífinu og þurfa að breyta útaf. Sjálfsmynd og sjálfstraust er lykillinn í fyrirlestrinum þar sem einkunnarorðin VIRÐING - TRAUST & AUÐMÝKT eru í forgrunni. Farið er yfir þau verkfæri og sjálfsvinnu sem einstaklingar geta nýtt sér til framdráttar í lífinu til að ná frekara jafnvægi í leik og starfi.


Inntak fyrirlestursins eru m.a. birtingarmyndir ofbeldis, samfélagsmiðlar kostir/gallar, sjálfstraust, sjálfsmynd, sjálfsvinna og styrkleikanálgun. Einstaklingar eru hvattir til þess að vilja vera besta útgáfan af sér, vera jákvæðir leiðtogar og fyrirmynd, gefa af sér til annarra og einbeita sér að því sem gefur þeim orku og vellíðan. 

Nafn fyrirlestursins #TÖFF/#TOUGH er eins konar orðaleikur, orðin hljóma eins þegar þau eru borin fram en annað hefur jákvæða merkingu en hitt neikvæða. Að vera töff getur þýtt að vera flottur og enska orðið tough merkir að eitthvað sé erfitt. Með því er verið að vísa til þess að lífið er ekki alltaf dans á rósum, við eigum öll góða og slæma daga, sama hver við erum og hvar við erum stödd á lífsleiðinni. Þá er sjálfsvinna mjög erfið fyrir marga en á sama tíma afar mikilvæg.   

Vertu fyrirmynd, vertu leiðtogi, vertu besta útgáfan af þér og láttu gott af þér leiða, VERTU TÖFF/TOUGH !!!

Skjámynd 2024-01-15 171225_edited_edited.png

Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir starfssemi Vopnabúrsins

Group Hike

TRAUST

Að trúa á einhvern og treysta er vandmeðfarið en í starfinu spilar traust stóran þátt. Með gagnkvæmri virðingu verður til traust. Með því að deila með sér gefur maður af sér til annarra og við það getur skapast traust. Svo hægt sé að njóta að fullu ávaxta erfiðis er lykillinn að deila og njóta með öðrum. Traust verður til með því að sýna í orði og verki að það skilji til hvers er ætlast til af því.

Að öðlast viðurkenningu fyrir verk sín skapar traust. Að veita því sérstaka athygli sem er dýrmætt og jákvætt í fari einstaklinga getur leitt af sér endalausa uppsprettu hæfileika, færni og hugmynda sem mikilvægt er að hlúa að, besta og þróa áfram. Eitt hrós getur skipt sköpum og kveikt neista innra með og laðað fram það besta í fari einstaklinga. Þakklæti er lykilorðið.

Umsagnir

Frábært úrræði sem virkar og gefur af sér. Sonur minn átti við hegðunar og fíknivanda að stríða og Bjössi breytti lífsstíl og hugafari hans til frambúðar og gaf syni mínum dýrmæta gjöf sem heldur áfram að gefa það sem eftir er. Þau gildi sem Vopnabúrið stendur fyrir eru svo sannarlega orð að sönnu: virðing, traust og auðmýkt. Nýr dagur - Ný tækifæri... Takk fyrir okkur Bjössi þú ert ENGILL í mannsmynd ;)

Guðný móðir

"Sem faðir get ég ekki sagt nægilega sterklega hversu gott úrræði Vopnabúrið er. Bjössi hefur komið inn eins og stormsveipur og náð gríðarlegum árangri bæði með barn sem og foreldra".

Finnur faðir

Sem foreldri og kennari er ég búin að leita mér mikillar þekkingar, farið á óteljandi námskeið og leitað leiða til að létta mér og mínum lífið en eins og við vitum þá er ekki hægt að setja alla undir sama hatt og því mikilvægt að úrræði séu fjölbreytt eftir því. Vopnabúrið hentar syni mínum vel þar sem hann hefur ekki tök/þroska óháð aldri að yfirfæra sálfræðiráðgjöf og fara eftir aðstoð sálfræðinga og fyrirmælum nema þá aðstoð mann á mann til lengri tíma til þess eins að hann hafi trú á því að hann geti hlutina og nái færni. Í Vopnabúrinu er sonur minn virkjaður og sjóndeildarhringurinn stækkaður. Áherslan er lögð á það sem gerir honum gott sem honum þykir jafnframt skemmtilegt og með tímanum verður þetta að lífsmynstri s.s. að rækta líkama sinn og spila borðspil í stað þess að festast í klóm tölvufíknar og missa þannig tengsl við sjálfan sig og umheiminn.

Ráðgjöfin hjá Vopnabúrinu er ótrúleg í einu orði sagt. Í fyrsta skipti er öll fjölskyldan tekin með í hjálpina og allir vinna saman. Systir hans hefur farið með honum í tíma og tekið þátt í verkefnum sem hafa yfirfarist inn á heimilið eftir tíma sem er frábært og einnig höfum við foreldrarnir fengið frábæra ráðgjöf og utanumhald þarna.

Thelma móðir

Það má segja að Bjössi í Vopnabúrinu hafi bjargað drengnum okkar. Drengurinn okkar var ekki á góðum stað og vorum við orðin ráðþrota með hvað við gætum gert til að snúa öllu við. Vopnabúrið var því eins og himnasending. Bjössi hjálpaði drengnum okkar að beina huganum í rétta átt og öðlast trú á sjálfan sig. Þetta skipti sköpum hjá honum. Við fundum fljótlega að þetta var eitthvað sem var að virka. Bjössi mætir krökkunum þar sem þeir eru staddir, á þeirra forsendum og nær þannig að vinna með þeim og út frá þeirra áhugamálum. Það eru komin tæp 2 ár síðan strákurinn okkar var hjá Bjössa og hann talar ennþá um að honum langi til að vera með Bjössa og vinna með honum. Hann er á góðum stað í dag.

Unnur móðir

Sonur okkar hefur öðlast betri líðan og aukið sjálfstraust frá því að hann byrjaði í Vopnabúrinu, hann hefur fengið ótrúlega mikinn stuðning frá Bjössa sem hann jafnframt lítur mikið upp til og samvinnan við okkur foreldrana gengur vonum framar. Þá átti Bjössi mikinn þátt í að sonur okkar gat stigið út fyrir sinn þægindaramma og sótt t.a.m. um sumarstarf hjá fyrirtæki sem tilheyrði hans áhugasviði. Bjössi hefur reynst bæði drengnum sem og okkur foreldrum hans mikill stuðningur og ávallt reiðubúinn að finna ný úrræði beri hitt ekki tilætlaðan árangur. 

Takk fyrir okkur elsku Bjössi fyrir allan þinn metnað og gæsku í starfi.

Arnar og Tinna foreldrar

Vopnabúrið er faglegt úrræði sem hefur það að markmiði að mæta skjólstæðingum sínum nákvæmlega þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Í starfi mínu sem þroskaþjálfi í grunnskóla sinni ég nemendum með fjölþættan vanda. Nemendur mínir sem fengið hafa þjónustu úrræðisins eiga það sameiginlegt að glíma við félagslega einangrun, mæting þeirra í skólann er lítil sem engin og þ.a.l. fylgir oft mikil einvera.

Það sem Vopnabúrið býður t.a.m. uppá eru tækifæri til þess að rjúfa þessu einveru, styrkja þau félagslega og skapa þeim stað þar sem þau finna öryggi og læra að treysta. Úrræðið býr jafnframt þannig til tækifæri til þess að efla þau og hjálpar þeim að byggja sig upp og setja sér markmið. Vopnabúrið býður þeim einnig uppá aðstöðu sem og tíma til þess að virkja áhugamál þeirra og leyfir þeim njóta þess að hafa gaman. Mörg börn sem komin eru á erfiðan stað í lífinu hætta oft að leyfa sér að hafa gaman.

Vopnabúrið leggur mikla áherslu á góð samskipti við heimili og skóla og er það mikilvægur grundvöllur fyrir því að árangur náist. Hætta er á því að foreldrar þeirra barna sem komin eru á þennan stað séu orðin þreytt á að eiga við kerfið og því væri það mikill ávinningur að fara í samstarf við slíkt úrræði þar sem barnið er miðpunkturinn og þjónustan sniðin í kringum þau og þeirra þarfir.

Reynsla mín af Vopnabúrinu er jákvæð og upplifun nemenda minna og foreldra er mjög góð. Nemendur mínir eru ávallt spenntir að fara í tíma og bíða alla vikuna eftir að komast til Bjössa. Þá hefur gott samstarf milli foreldra, Vopnabúrsins og skólans skilað góðum árangri og líðan nemenda aukist til muna. Vopnabúrið er frábært úrræði sem hefur sannarlega skilað sínu til þeirra nemenda sem þjónustuna hafa notið.

Þroskaþjálfi

Gengið hefur vel hjá skjólstæðingi sem sótt hefur þjónustu Vopnabúrsins og hafa foreldrar og barn verið ánægð með úrræðið. Vikulega eru upplýsingar um hvað var gert og hvað var unnið með þá vikuna. Sendir eru tölvupóstar á samráðsteymi/stuðningsteymi barnsins og til foreldra þar sem fram koma upplýsingar um hvað gekk vel og hvað má betur fara. Mikilvægt er að úrræði eins og Vopnabúrið haldi áfram og verði til staðar fyrir börn í vanda þar sem um einstaklingsmiðaða þjónustu er að ræða. Úrræðið er faglegt og vel unnið með áherslu á barnið og að þjónusta það.

Félagsráðgjafi

Vopnabúrið er mikilvægt úrræði sem hefur reynst  frábærlega þeim nemendum okkar sem notið hafa þess. Stafið er faglegt og einstaklingsmiðað með barnið í brennidepli. Samstarf hefur verið gott og starfsmaður Vopnabúrsins mjög mikilvægur hlekkur í stuðningsteymi nemenda. Nemendur hafa verið ánægðir og traust hefur myndast milli starfsmanns og nemenda. Ég hef sérstaklega tekið eftir breyttri hegðun nemenda hvað varðar sjálfstraust og viðbrögð við ákveðnum atvikum. Það er afar mikilvægt að unnið sé markvisst með viðkvæmum einstaklingum, þegar Vopnabúrið er annars vegar er áherslan á vinnu með barninu sjálfu, mótun sjálfsmyndar þar sem nemendur læra m.a. að þekkja styrkleika sína.

Vopnabúrið er afar vel skipulagt og samstarf og úrvinnsla góð. 

Skólatengiliður

Vertu TÖFF/TOUGH
TÖFF Vertu besta útgáfan af þér
Nýr dagur Ný tækifæri kynningavideó Vbúrsins
Motocrossferð Vopnabúrsins
Tómstundirnar
Karfan og rafhlaupahjól
Videó Vopnabúrsins intro
Judge's Table

Persónuverndarstefna
Vopnabúrsins

Vopnabúrið ehf kappkostar að tryggja vernd persónuupplýsinga og að vinnsla þeirra sé í samræmi við gildandi lög og reglur samkv. lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuverndarstefna Vopnabúrsins tekur til allra vinnslu persónuupplýsinga um skjólstæðinga sem nýta sér úrræði Vopnabúrsins, aðstandendur þeirra, lykilstofnanana, umsækjenda um störf og starfsmenn. Megin tilgangur persónuverndarstefnu Vopnabúrsins er að upplýsa almenning um hvernig upplýsingum er aflað og hvernig þær eru meðhöndlaðar í úrræðinu og öllu því starfi sem því fylgir.

Persónuupplýsingar eru sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónu-greinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti.


Vinnsla persónuupplýsinga vísar til aðgerðar eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki. Þá er um að ræða upplýsingum sem aflað er fyrir skjólstæðinga og aðstandendur þeirra, upplýsingar fyrir umsækjendur um störf hjá Vopnabúrinu auk upplýsinga fyrir starfsmenn úræðsins.

Þess ber að geta að heimasíða Vopnabúrsins ehf er uppsett og keyrð af erlendu fyrirtæki sem ber heitið wix.com. Sú þjónusta sem wix.com býður upp á er m.a. sú að við heimsóknir einstaklinga inn á heimsíðu Vopnabúrsins vistast fótspor þeirra sem mögulegt er að vinna með. Tekið skal fram að slík fótspor er ekki unnið með sem slíkt.

Þeir einstaklingar/skjólstæðingar sem  Vopnabúrið vinnur persónuupplýsingar um eiga rétt á að fá upplýsingar og/eða aðgang að persónuupplýsingum um þá sjálfa sem Vopnabúrið hefur undir höndum. Þeir eiga hvenær sem er rétt á að afturkalla samþykki sitt fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem byggð er á samþykki. Þeir eiga einnig rétt á að óska eftir að láta leiðrétta, eyða eða takmarka vinnslu persónuupplýsinga um sig eða andmæla slíkri vinnslu. Í ákveðnum tilvikum geta þeir einnig átt rétt á flutningi persónuupplýsinga sem þeir hafa látið Vopnabúrið í té til annars ábyrgðaraðila. Framangreindum réttindum kunna þó að vera sett takmörk í gildandi lögum og reglum.

Sé óskað nánari upplýsingar um framangreint skal hafa samband við persónuverndarfulltrúa Vopnabúrsins, Tinna Dahl ,rekstrar- og mannauðsstjóra (tinna@vopnaburid.is).


Einnig er hægt að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd (www.personuvernd.is, postur@personuvernd.is) ef talið er að Vopnabúrið hafi ekki virt réttindi einstaklinga við meðferð á persónuupplýsingum þeirra.

Vopnabúrið ehf áskilur sér rétt til að breyta persónuverndarstefnu þessari eftir því sem þurfa þykir. Nýjasta útgáfa persónuverndarstefnunnar er birt á vefsíðu Vopnabúrins hverju sinni.

Persónuverndarstefna þessi var sett 4. apríl 2021.

bottom of page